Erlent

Telja verktaka CIA hafa lekið upplýsingunum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
CIA hefur ekki viljað tjá sig um málið.
CIA hefur ekki viljað tjá sig um málið. vísir/afp
Verktakar sem störfuðu fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA eru grunaðir um að hafa lekið upplýsingum og gögnum til WikiLeaks. Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir heimildarmönnum sínum innan CIA.

Heimildarmennirnir, sem fóru fram á nafnleynd, sögðu leyniþjónustuna hafa vitað af gagnalekanum frá því í lok síðasta árs, en WikiLeaks birti í gær mörg þúsund blaðsíður af trúnaðarupplýsingum á vefsíðu sinni. Þá segja þeir að verið sé að fara yfir tölvur allra starfsmanna.

Lekinn hefur verið nefndur Vault 7 en gögnin sem birt voru sýna hvernig CIA hefur notað forritunartæki og spilliforrit til þess að brjótast inn í tölvuhugbúnað á borð við Windows, Android, iOS g Linux.

Þessi spilliforrit veita leyniþjónustunni svo greiðan aðgang að snjalltækjum almennings, tölvum, símum og jafnvel sjónvörpum, og breyta þeim í njósnatæki, sýnist þeim svo. Þannig geti leyniþjónustan kveikt á myndavélum og upptökubúnaði og lesið smáskilaboð fólks án þess að það viti af því. Flest bendir til þess að gögnin séu ósvikin.

Hvíta húsið lýsti yfir þungum áhyggjum vegna málsins í yfirlýsingu sinni í dag. Talsmaður Hvíta hússins sagði að hver sá sem beri ábyrgð á lekanum verði sóttur til saka af fullum þunga.

CIA hefur ekki viljað tjá sig um málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×