Innlent

Leita manns sem grunaður er um líkamsárás í Sambíóum

Birgir Olgeirsson skrifar
Talið er að sá sem að árásinni stóð hafi rifið upp áhald sem líktist hnúajárni.
Talið er að sá sem að árásinni stóð hafi rifið upp áhald sem líktist hnúajárni. Vísir/GVA
Búið er að kæra líkamsárás sem átti sér stað í Sambíóunum í Egilshöll í síðustu viku. Sá sem kærði er piltur um tvítugt en lögreglan hefur ekki haft upp á þeim sem er talinn vera gerandinn.

„Það á eftir að hafa upp á honum en við erum með vissar grunsemdir um það hver hann er,“ segir Ásgeir Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með rannsókn málsins.

Árásin átti að hafa átt sér stað fyrir utan kvikmyndasal í Sambíóunum í Egilshöll og er talað um að undir lok árásarinnar hafi gerandinn rifið upp áhald sem líktist hnúajárni en Ásgeir Pétur segir enga staðfestingu hafa fengist á því. Hann segir þann sem varð fyrir árásinni hafa hlotið einhverja áverka.

Ásgeir segir ekki komið að þeim tímapunkti í rannsókninni að lýsa eftir þeim sem er talinn hafa verið gerandi í málinu. „Við eigum að geta fundið út úr því. Það eru það góðar vísbendingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×