Innlent

Rann­sókn á Austurs­mynd­bandinu: „Erfitt að átta sig á fjölda dreifinga“

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögregla segir málið afar viðkvæmt.
Lögregla segir málið afar viðkvæmt. Vísir/Pjetur
„Þetta er ekki auðvelt en við erum að sjá hvað við getum gert,“ segir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar um höfuðborgarsvæði, um rannsókn á dreifingu myndbands sem var tekið upp á skemmtistaðnum Austri fyrir rúmri viku.

Á myndbandinu mátti sjá karl og konu hafa samfarir á opnum klósettbás á skemmtistaðnum en það fór síðar í mikla dreifingu á internetinu sem var síðar kærð. „Kæran beinist gegn því að þarna hafi efni verið dreift án vitund og samþykkis og það er það sem er verið að vinna úr,“ segir Árni Þór.

Hann vildi ekki tjá sig um það hvort einhver hafi verið handtekinn eða yfirheyrður vegna málsins.

„Við erum að skoða þræði sem við getum unnið úr, það er eins og liggur í augum uppi erfitt að átta sig á fjölda dreifinga,“ segir Árni.

Spurður hvað telst til dreifingar á myndbandinu segir hann það vera álitamál sem þarf að taka ákvörðun um í framhaldi á rannsókn málsins. „Dreifingin myndi allavega vera sá aðili sem fyrstur setur efnið frá sér.“

Spurður hvort það muni teljast til dreifingar ef einhver hefur myndbandið aðgengilegt á vef eða þá hvort það teljist til dreifingar ef einhverjir skiptast á myndbandinu sín á milli segir Árni það ekki hafa verið tekið sérstaklega út. Kæran beinist að dreifingu á efninu á vitundar og samþykkis og það sé verið að rannsaka.

Árni segir málið ekki auðvelt viðfangs þegar hann er spurður hvort rannsóknin nái til margra þátta.

Vísir ræddi við Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara vegna málsins í síðustu viku en hún sagði að um brot gæti verið að ræða samkvæmt persónuverndarlögum og að refsiákvæði hegningarlaga komi einni til greina, svo sem ærumeiðingar og svo hvort um blygðunarsemisbrot sé að ræða.

Árni Þór segir að það muni ekki skýrast fyrr en rannsókn málsins er lokið hvaða lagaákvæði eiga við í þessu máli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×