Innlent

Þorgerður útilokar ekki að leggja fram mjólkurfrumvarpið í vor

Heimir Már Pétursson skrifar
Landbúnaðarráðherra útilokar ekki að frumvarp sem ætlað er að auka samkeppni í mjólkuriðnaði verði lagt fram á yfirstandandi þingi. Verði frumvarpið að lögum muni það opna á nýliðun og nýsköpun styrkja mjög sterkan mjólkuriðnað í landinu enn frekar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur birt drög að frumvarpi á vef ráðuneytisins sem felur í sér miklar breytingar á starfsemi afurðarstöðva með mjólkurvörur. Frumvarpið hefur þegar kallað fram sterk viðbrögð. Haft er eftir bændum í Morgunblaðinu í dag að verði frumvarpið að lögum muni það bæði leiða til hækkunar á verði mjólkurvara og minni framleiðslu innanlands. Verið sé að koma í bakið á bændum miðað við nýlega afgreiðslu búvörulaga á Alþingi.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn andi rólega og fari vel yfir frumvarpið. Ég set þetta af ásettu ráði til kynningar. Nú er tími og tækifæri til að koma með athugasemdir, ábendingar, málefnalega gagnrýni. Ég tel einfaldlega að þetta muni til lengri tíma litið styrkja okkar sterka mjólkuriðnað,“ segir Þorgerður Katrín. Markmiðið sé að ná fram aukinni samkeppni í framleiðslu mjólkurafurða og opna fyrir frekari nýliðun og nýsköpun í landbúnaði og framleiðslu.

„Mjólkursamsalan er að standa sig að mínu mati á umliðnum árum mjög vel. Við erum að sjá mjög öfluga framleiðslu víða. Hjá KS og líka hjá minni fyrirtækjunum, Örnu í Bolungarvík og öðrum. Ég held að við eigum einfaldlega eftir að sjá sterkari markað fyrir neytendur og meiri fjölbreytni,“ segir landbúnaðarráðherra.

Samkvæmd frumvarpsdrögunum yrði afurðastöðvum óheimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða, sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.

Nú stendur yfir endurskoðun á búvörulögum sem á að verða lokið árið 2019. Ráðherra segir mikilvægt að nú gefist tími til að fara yfir ábendingar og umsagnir um frumvarpið en opið er fyrir umsagnir til 17. mars næst komandi. Hún útilokar ekki að frumvarpið verði lagt fram áður en endurskoðunarnefnd búvörulaga lýkur störfum.

„Nei, ég útiloka ekkert. Ég vil einfaldlega að þetta verði unnið vel. Þess vegna Þess vegna tók ég þetta skref að setja þetta út til umsagnar. Þannig að öllum gæfist færi á að skoða málið vel, koma með sýna umsögn og vinna málið betur. Þess vegna er málið sett í opið gegnsætt ferli,“

Þannig að þú ert að kalla eftir viðbrögðum en ekki að fara að leggja þetta mál fram í vor?

„Ég ætla ekki að útiloka neitt í þá veru. Það getur vel verið að það verði lagt fram til afgreiðslu og meðferðar í þinginu. Ég ætla ekki að útiloka neitt í því. Við viljum bara vinna þetta vel. Það er það sem skiptir mestu máli,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×