Erlent

Facebook tilkynnti BBC til lögreglunnar vegna barnakláms

Samúel Karl Ólason skrifar
Blaðamennirnir höfðu fundið hópa á Facebook þar sem barnaníðingar dreifðu kynferðislegum myndum af börnum og tilkynntu þá til Facebook.
Blaðamennirnir höfðu fundið hópa á Facebook þar sem barnaníðingar dreifðu kynferðislegum myndum af börnum og tilkynntu þá til Facebook. Vísir/Getty
Starfsmenn Facebook tilkynntu nýverið blaðamenn breska ríkisútvarpsins til lögreglunnar fyrir dreifingu á barnaklámi. Blaðamennirnir höfðu þá verið að reyna að fá Facebook til að fjarlægja tugi kynferðislegra mynda af börnum af samfélagsmiðlinum, án góðs árangurs.

Samfélagsmiðillinn hefur orðið fyrir gagnrýni fyrir viðbrögð sín við ábendingum um barnaklám.

Blaðamennirnir höfðu fundið hópa á Facebook þar sem barnaníðingar dreifðu kynferðislegum myndum af börnum. Þá voru þeir að vinna að frétt um varnir Facebook gegn barnaníð og kynferðislegum myndum af börnum.

Eftir að hafa tilkynnt hundrað myndir og færslur til Facebook, með þar til gerðu tóli á samfélagsmiðlinum, voru einungis átján af myndunum fjarlægðar. Ein af myndunum sem voru ekki fjarlægðar var mynd úr myndbandi þar sem verið var að misnota barn.

Blaðamennirnir höfðu einnig fundið fimm dæmda barnaníðinga á Facebook, sem mega ekki vera þar inni samkvæmt reglum samfélagsmiðilsins, og tilkynnt þá til fyrirtækisins. Aðgöngum þeirra var ekki lokað.

Hér má sjá umfjöllun BBC.

Viðbrögð sem vekja furðu

Fyrst var óskað um viðtali við Facebook árið 2015 og svo aftur nú í kjölfar nýjustu rannsóknarinnar sem hófst fyrir um ári síðan. Það var samþykkt með því skilyrði að BBC myndi senda Facebook dæmi um myndir sem hefðu verið tilkynntar en ekki verið fjarlægðar.

Blaðamennirnir sendu því nokkrar myndir til Facebook til að sýna þeim um hverslags myndir væri að ræða og til undirbúnings fyrir viðtalið um varnir Facebook gegn barnaklámi.

Starfsmenn Facebook brugðust við með því að tilkynna blaðamennina til lögreglu og hætta við viðtalið.

Þá sendi fyrirtækið tilkynningu til BBC þar sem fram kom að farið hefði verið yfir efnið sem þeir fengu sent. Allt efni sem hafi brotið gegn reglum samfélagsmiðilsins hafi verið fjarlægt í kjölfarið.

Þá segir í tilkynningunni að það sé ólöglegt að dreifa barnaklámi og því hafi blaðamennirnir verið tilkynntir til lögreglunnar. Facebook tilkynnti einnig efni á samfélagsmiðlinum til lögreglu.

Efasemdir um varnir Facebook

Formaður nefndar breska þingsins um fjölmiðla, Damian Collins, segir atvikið hafa vakið upp miklar efasemdir um varnir Facebook. Þá segir hann það vaka furðu sína að fyrirtækið hafi tilkynnt blaðamenn til lögreglu, þegar þeir hafi verið að reyna að hjálpa Facebook að taka til á samfélagsmiðlinum.

Talskona Barnaverndarsamtaka Bretlands segir að með því að fjarlægja ekki efnið sé Facebook að brjóta gegn samningum sem fyrirtækið hefur gert um verndun barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×