Erlent

Juppé segist ekki ætla fram þrátt fyrir þrýsting

atli ísleifsson skrifar
Repúblikaninn Alain Juppé er fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands.
Repúblikaninn Alain Juppé er fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands. Vísir/AFP
Franski Repúblikaninn Alain Juppé segist ekki ætla að bjóða sig fram í frönsku forsetakosningunum í vor. Þrýst hefur verið á Juppé að bjóða sig fram en mikill styr hefur að undanförnu staðið um forsetaefni Repúblikana, Francois Fillon, þar sem flokksmenn hafa margir hvatt Fillon til að draga framboð sitt til baka.

Fillon hafði betur gegn Juppé í forkosningum Repúblikanaflokksins í haust. Lögregla hefur nú hafið rannsókn á meintum spillingarbrotum Fillon, en Fillon hefur sagst ætla halda framboði sínu til streitu. Hefur hann hafnað ásökunum um að eiginkona hans og börn hafi þegið laun úr opinberum sjóðum sem aðstoðarmann hans, án þess að hafa skilað eðlilegu vinnuframlagi.

Juppé gagnrýndi í morgun þvermóðsku Fillon en sagðist þó ekki munu bjóða sig fram.

Fyrrverandi forsetinn Nicolas Sarkozy, sem tapaði bæði fyrir Juppé og Fillon í forvali Repúblikanaflokksins í haust, hefur boðað til neyðarfundar milli hans Juppé og Fillon í kvöld þar sem málin verða rædd. Eru vangaveltur uppi um að Sarkozy muni þar leggja til að hann verði sjálfur forsetaefni Repúblikana.

Skoðanakannanir hafa sýnt að ólíklegt sé að Fillon verði annar af tveimur efstu frambjóðendunum í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna sem fram fer 23. apríl. Þykir líklegast að hinn óháði Emmanuel Macron og Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, munu þar etja kappi, en síðari umferðin fer fram 7. maí.


Tengdar fréttir

Kosningastjóri Fillon segir af sér

Patrick Stefanini hefur sagt af sér sem kosningastjóri Francois Fillon, forsetaframbjóðanda Repúblikana í Frakklandi.

Frakkar fengið nóg af spillingu

Þúsundir manna héldu út á torgið Place de la Republique í París í gær til að mótmæla spillingu meðal stjórnmálamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×