Erlent

Rússnesk yfirvöld íhuga að banna Fríðu og dýrið vegna „samkynhneigðs áróðurs“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Emma Watson fer með hlutverk Fríðu og Dan Stevens fer með hlutverk dýrsins
Emma Watson fer með hlutverk Fríðu og Dan Stevens fer með hlutverk dýrsins Vísir/Skjáskot
Rússnesk yfirvöld eru nú undir þrýstingi af hálfu þingmanna rússneska þingsins, sem krefjast þess að kannað verði hvort að kvikmyndin Beauty and the Beast brjóti lög landsins sem banna „samkynhneigðan áróður.“ Þau hafa það nú til skoðunar. BBC greinir frá.

Um er að ræða leiknu endurgerðina af Beauty and the Beast, með Emmu Watson í aðalhlutverki, sem væntanleg er í kvikmyndahús á næstunni. Í kvikmyndinni er fyrsti samkynhneigða persónan í sögu Disney og kemur viðkomandi persóna meðal annars fram í ástarsenu í myndinni.

Rússneski þingmaðurinn Vitaly Milonov hefur sagt að kvikmyndin sé „helber syndaáróður“ og þá hefur menningarráðherra landsins, Vladimír Medinsky sagt að yfirvöld muni að öllum líkindum grípa til aðgerða vegna þessa. Lögin sem myndin er talin brjóta voru lögð á árið 2013 og banna að „samkynhneigðum áróðri sé haldið að börnum þar í landi.“

Kvikmyndin á að koma út í Rússlandi þann 16. mars næstkomandi en Milonov hefur kallað eftir því að myndin verði alfarið bönnuð ef að hún brýtur gegn umræddum lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×