Enski boltinn

Sá markahæsti spilar með liði Leeds United | Með tvö mörk í sigri í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Leeds United hefur ekki spilaði í ensku úrvalsdeildinni síðan 2004 en er nú til alls líklegt í toppbaráttu ensku b-deildarinnar.

Leeds United á markahæsta leikmenn ensku b-deildarinnar eftir að Chris Wood skoraði tvívegis í kvöld þegar Leeds vann 3-1 útisigur á Birmingham City.

Chris Wood hefur skorað 21 mark á tímabilinu til þessa og blómstrar undir stjórn Garry Monk, fyrrum knattspyrnustjóra Swansea City.

Chris Wood kom Leeds í 1-0 á 14. mínútu en Craig Gardner jafnaði metin á 63. mínútu. Chris Wood kom Leeds aftur yfir aðeins fjórum mínútum síðar og Alfonso Pedraza innsiglaði síðan sigurinn á 81. mínútu.

Leeds United er með 64 stig í 4. sæti deildarinnar aðeins stigi á eftir Huddersfield Town sem er í 3. sætinu.

Newcastle United (73 stig) og Brighton & Hove Albion (71 stig) eru í efstu sætunum en tvö efstu sætin gefa beint sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Það verður erfitt fyrir hin liðin á ná Newcastle og Brighton en Leeds er á góðri leið með að komast í úrslitakeppnina um síðasta lausa sætið í ensku úrvalsdeildinni.

Leeds hefur endað í 13. til 15. sæti undanfarin fimm tímabil og gott gengi liðsins er fagnaðarefni fyrir marga stuðningsmenn félagsins bæði í Englandi sem og hér á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×