Enski boltinn

Kane með tvö í níunda heimasigri Spurs í röð | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane skoraði tvö mörk þegar Tottenham bar sigurorð af Everton, 3-2, í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Þetta var níundi heimasigur Tottenham í deildinni í röð.

Kane er nú kominn með 19 mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en enginn leikmaður hefur gert fleiri.

Með sigrinum minnkaði Tottenham forskot Chelsea á toppnum niður í sjö stig. Chelsea getur endurheimt 10 stiga forskot með sigri á West Ham United á morgun.

Kane skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 20. mínútu með skoti af löngu færi. Hann bætti svo öðru marki við á 56. mínútu og staða Spurs orðin vænleg.

Romelu Lukaku gaf gestunum von þegar hann minnkaði muninn á 81. mínútu með sínu átjánda deildarmarki.

Dele Alli jók muninn aftur upp í tvö mörk þegar hann skoraði þriðja mark Tottenham í uppbótartíma. Aðeins mínútu síðar minnkaði varamaðurinn Enner Valencia muninn í 3-2 en nær komust Everton-menn ekki.

Þetta var fyrsta deildartap Everton frá 19. desember 2016. Liðið er áfram í 7. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×