Enski boltinn

Zlatan slapp við rautt og klúðraði víti þegar Man Utd og Bournemouth skildu jöfn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United mistókst að komast upp úr 6. sætinu þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Bournemouth á Old Trafford í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

United var miklu sterkari aðilinn framan af fyrri hálfleik og komst yfir með marki Marcos Rojo á 23. mínútu. Argentínumaðurinn stýrði þá skoti Antonios Valencia í netið.

Á 40. mínútu braut Phil Jones klaufalega á Marc Pugh innan teigs og Kevin Friend benti á punktinn. Joshua King tók spyrnuna og skoraði af öryggi.

Skömmu síðar sauð allt upp úr. Tyrone Mings byrjaði á því að traðka á höfðinu á Zlatan Ibrahimovic. Svíinn hefndi sín með því að gefa Mings olnbogaskot.

Hvorugur þeirra fékk rauða spjaldið en Friend gaf Andrew Surman, fyrirliða Bournemouth, hins vegar sitt annað gula spjald fyrir að stjaka við Zlatan.

United náði ekki sama flugi í seinni hálfleik, þrátt fyrir að vera manni fleiri. Heimamenn fengu þó gullið tækifæri til að tryggja sér sigurinn þegar um 20 mínútur voru eftir.

Adam Smith fékk þá boltann í höndina innan teigs og Friend benti aftur á punktinn. Zlatan tók spyrnuna en Artur Boruc, besti maður vallarins, varði vel.

Örþreyttir Bournemouth-menn héldu út og náðu í afar mikilvægt stig í botnbaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×