Enski boltinn

Telegraph spáir miklum tímamótum hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blaðamenn Telegraph hafa skoðað stöðuna í ensku úrvalsdeildinni og greint framhaldið hjá liðunum í efstu sætunum. Nú hafa þeir birt spá sína um hvaða lið tryggja sér Meistaradeildarsæti.

Chelsea er með tíu stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og ekki bara öryggir með sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili heldur einnig svo gott sem búnir að tryggja sér enska meistaratitilinn.

Það eru tólf umferðir eftir og 36 stig í pottinum en miðað við spilamennsku og stöðugleika Chelsea þá er ekkert stórslys í spilunum á síðustu tólf vikum tímabilsins.

Það er hinsvegar mikil spennan í baráttunni um hin þrjú sætin sem gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni 2017-18 og þar má segja að fimm lið séu að berjast um þrjú laus sæti.

Tottenham er með 53 stig, einu stigi meira en Manchester City, en lærisveinar Pep Guardiola í City eiga leik inni. Arsenal er síðan í fjórða sætinu með 50 stig, einu stigi meira en Liverpool. Arsenal á leik inni eins og Manchester City.

Blaðamenn Telegraph hafa mikla trú á Manchester City sem þeir segja að taki annað sætið. Þeir setja síðan Tottenham í þriðja sætið. Þá er bara eitt laus sæti og þrjú lið sem eiga möguleika á því.

Þar spá menn að mikil tímamót eigi sér stað. Þau eru ekki að Liverpool missti af Meistaradeildarsæti eða að Manchester United taki fjórða sætið og komst í Meistaradeildina annað árið í röð.

Nei, tímamótin sem um ræðir er að spekingar Telegraph spá því að Arsenal nái bara fimmta sætinu í deildinni og missi því af Meistaradeildarsæti.

Undir stjórn Arsene Wenger hefur Arsenal komist í Meistaradeildina á nítján tímabilum í röð eða allt frá því að liðið komst þangað tímabilið 1998-99 eftir fyrsta meistaratitil liðsins undir stjórn Wenger.

Dagskráin er erfið hjá Arsenal. Þeir eiga reyndar að öllu eðlilegu bara eftir einn leik í Meistaradeildinni en þeir eru enn með í enska bikarnum og eiga síðan deildarleiki við Liverpool, Tottenham, Manchester United og Manchester City. þeir bjartsýni segja að þetta sé í höndum leikmanna Arsenal en þeir svartsýnu benda á mjög erfiða leikjadagskrá.

Það er hægt að sjá spá og umfjöllun Telegraph með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×