Enski boltinn

Manchester City áfram í bikarnum eftir stórsigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kelechi Iheanacho skorar gegn Huddersfield í kvöld.
Kelechi Iheanacho skorar gegn Huddersfield í kvöld.
Manchester City er komið áfram í enska bikarnum eftir stórsigur á Huddersfield í leik liðanna í Manchester í kvöld. City mætir Middlesbrough í 8-liða úrslitum keppninnar.

Fyrri leikur liðanna fór 0-0 og því þurftu þau að mætast á ný í kvöld. Gestirnir sitja í 3.sæti Championship-deildarinnar og eru í baráttu um sæti í deild hinna bestu á næsta tímabili. Það voru þeir sem opnuðu markareikninginn í kvöld þegar Harry Bunn kom liðinu yfir strax á 7.mínútu. Aldeilis óvænt.

Adam var þó ekki lengi í paradís hjá Huddersfield því Manchester City skoraði þrjú mörk fyrir hlé. Leroy Sane jafnaði á 30.mínútu og Argentínumennirnir Sergio Aguero og Pablo Zabaleta komu liðinu í 3-1 með mörkum með þriggja mínútna millibili undir lok hálfleiksins.

Í síðari hálfleik var aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda. Aguero skoraði sitt annað mark á 73.mínútu og varamaðurinn Kelechi Iheanacho skoraði fimmta markið í uppbótartíma.

Manchester City er því komið í 8-liða úrslit FA-bikarsins og mætir þar Middlesbrough á útivelli þann 11.mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×