Innlent

Hótaði fyrrverandi ástmanni sínum að birta myndband af kynmökum þeirra á netinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/VAlli
Sigurður Dalmann Áslaugarson, maður á fimmtugsaldri, hefur verið dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir hótanir, brot gegn blygðunarsemi, dreifingu kláms og stórfelldar ærumeiðingar. Meðal annars hótaði hann að setja myndir og myndband af kynmökum hans og fyrrverandi ástmanns síns á internetið, en myndbandið tók hann upp án þess að ástmaðurinn vissi af því.

Brotaþoli málsins sagðist hafa stundað kynlíf með Sigurði í skiptum fyrir að hann greiddi fíkniefnaskuld hans. Það hafi Sigurður hins vegar ekki gert og því hafi brotaþoli neyðst til þess að vera með honum í sambandi. Hann hefði verið fastur í því vegna samninga sem Sigurður samdi.

Eftir að brotaþoli sleit sambandi þeirra fékk hann skilaboð með myndum af þeim tveimur að hafa mök og hótaði Sigurður að setja þær á netið. Hann sendi einnig myndir á tvær kærustur brotaþolans. Þá sendi hann þáverandi unnustu brotaþola minnislykil með sjö myndum af þeim tveimur að stunda kynmök.

Sigurður á sakaferil að baki sér sem nær aftur til ársins 1995 og var hann á reynslulausn. Hins vegar var hann settur á reynslulausn eftir að þetta mál var kært árið 2014 og því er hann ekki talinn hafa brotið gegn reynslulausninni samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Auk fangelsisvistarinnar var hann dæmdur til að greiða brotaþola tvær milljónir króna og tæpar þrjár milljónir í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×