Innlent

Kynntu Barbershop-verkfærakistuna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá kynningunni í dag.
Frá kynningunni í dag.
Landsnefnd UN Women á Íslandi og íslensk stjórnvöld kynntu í dag í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna Barbershop-verkfærakistuna en hún er ætluð hverjum þeim sem vill hvetja karlmenn til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.

Í tilkynningu frá landsnefnd UN Women á Íslandi segir að verkfærakistan hafi verið þróuð af landsnefndinni í samstarfi við íslensk stjórnvöld og afhent HeForShe, alþjóðlegri hreyfingu UN Women fyrir aukinni þátttöku karla í umræðunnu um jafnrétti kynjanna.

„Barbershop-verkfærakistan er aðgengileg á heimasíðu HeForShe og veitir nákvæmar leiðbeiningar um skipulagningu ólíkra viðburða sem allir hafa það þó að markmiði að virkja karla til að beita sér í sínu nærumhverfi fyrir kynjajafnrétti. Þannig gerir verkfærakistan fólki kleift að ná til karla og stráka, óháð staðsetningu eða starfsgeira.

Hingað til hefur gjarnan verið litið á þessa baráttu sem einkamál kvenna. Samkvæmt rannsókn á vegum World Economic Forum verður kynjajafnrétti ekki náð í heiminum fyrr en eftir 117 ár ef við höldum áfram á sömu braut á sama hraða. Með stráka og karlmenn um borð er talið að kynjajafnrétti náist helmingi hraðar,“ segir í tilkynningunni.

Sérstakur viðburður var haldinn til að kynna verkfærakistuna sem var vel sóttur og komust færri að en vildu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×