Innlent

For­maður Lands­sam­taka hjól­reiða­manna hneykslaður á skýrslu rann­sóknar­nefndar sam­göngu­slysa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá slysstað.
Frá slysstað. mynd/rannsónarnefnd samgönguslysa
Ásbjörn Ólafsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, segir hjólreiðamenn vera algjörlega á móti boði og bönnum þegar kemur að hjólreiðum en það vakti nokkra athygli í gær þegar greint var frá því að rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur beint því til innanríkisráðuneytisins að banna hjólreiðar á fjölakreinavegum í þéttbýli þar sem er mikil umferð og mikill hraði.

Kom þetta fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um banaslys í Ártúnsbrekku í desember 2015 þegar hjólreiðamaður lést eftir að leigubíll keyrði aftan á hann. Rætt var við Ásbjörn í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og hann spurður út í hvernig tillögur rannsóknarnefndarinnar legðust í reiðhjólafólk.

„Mjög illa. Við erum algjörlega á móti boðum og bönnum og við teljum alls ekki að þetta sé rétta leiðin að hindra þá sem vilja hjóla í því að hjóla og þar sem þeir þurfa að hjóla. Staðreyndin er bara sú að ef það er boðið upp á góða valkosti í hjólreiðum þá velur fólk þær leiðir sem eru öruggar og fljótlegar að fara,“ sagði Ásbjörn.

Aðspurður hvort að aðstæður í Ártúnsbrekkunni væru nógu góðar til að leyfa hjólreiðar þar sagði hann að þær væru ekki góðar en að menn geti hjólað í öxlunum og nýtt þá. Þá sagðist Ásbjörn vera svolítið hneykslaður á niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

„Eftir að hafa lesið þessa skýrslu þá er maður svolítið hissa að það sé verið að reyna að varpa ábyrgðinni svolítið yfir á hjólreiðamanninn sem er þó með blikkandi ljós og í gulu vesti á meðan ábyrgðinni er ekki varpað á leigubílstjórann sem er atvinnumaður er með tæki í glugganum sem hindra útsýni og er þreyttur og keyrir of hratt. Og að lausnin skuli vera að banna hjólreiðar finnst mér með ólíkindum í stað þess að stinga upp á því að það séu settar í alla atvinnubíla. Ég er svolítið hneykslaður á hver niðurstaða skýrslunnar er,“ sagði Ásbjörn en hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×