Innlent

Ungmenni og ölvað fólk fyrirferðamikið hjá lögreglu í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Óskað var eftir aðstoð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag vegna slagsmála unglinga í hverfi 105. Einn úr hópnum þurfti að fara á slysadeild vegna piparúða sem hafði verið spreyjað á hann. Þá barst lögreglunni tilkynning um að piltar væru að ógna nemendum við skóla í hverfi 104, samkvæmt dagbók lögreglunnar. Einn piltanna var sagður vera með hníf, en þeir voru farnir þegar lögreglu bar að.

Þar að auki barst tilkynning um pilt skjótandi úr loftbyssu út í loftið nærri verslunarmiðstöð. Tekið var fram að hann hefði ekki ógnað neinum. Lögregluþjónar af stöð eitt og meðlimir sérsveitar ríkislögreglustjóra leituðu drengsins, en hann fannst ekki.

Lögreglunni barst einnig ósk um aðstoð vegna umferðarslyss í Engidal á móti gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Álftanesvegar þar sem fólksbíll og jeppi lentu saman. Ökumaður fólksbílsins var fluttur á slysadeild.

Þá þurftu lögregluþjónar að hafa afskipti af ölvuðum manni sem var til vandræða á slysadeild Landspítalans í Fossvogi og par sem var í annarlegu ástandi fyrir utan verslunarmiðstöð í Hafnarfirði. Einnig barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi í verslunarkjarna í Breiðholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×