Innlent

Deiluaðilar vinna nú loks saman

Sveinn Arnarsson skrifar
Samningurinn var undirritaður í landbúnaðarráðuneytinu í gær.
Samningurinn var undirritaður í landbúnaðarráðuneytinu í gær. vísir/anton brink
„Hér er á ferðinni brýnt mál sem hefði að mínu mati átt að vera farið af stað fyrir löngu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um samning Landgræðslunnar, Samtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands um heildarmat á ástandi gróðurs og jarðvegs á Íslandi.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna.
Samkomulag milli þessara aðila er sögulegt því deilur hafa verið uppi í áratugi um jarðvegseyðingu af völdum sauðfjárræktar og ofbeit. Sitt hefur hverjum sýnst í þeim efnum.

„Ég skal viðurkenna að þetta hefur verið umdeilt í langan tíma. Verkefnið er einmitt til að reyna að ná betri sátt um hvernig við metum og nýtum landið,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna. „Nú vinnum við saman að því að búa til öflugra vöktunarkerfi á því í hvaða ástandi landið er og hvað það þolir og vonumst við til þess að almenn sátt náist um kerfið.

Þorgerður Katrín telur hér um stefnubreytingu að ræða. „Þetta er algjör nýlunda og nýbreytni að menn taki höndum saman, landgræðsla og Samtök sauðfjárbænda, og fari yfir þetta brýna mál. Aðilar eru sammála um að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda landsins og heildstæð vöktun verður til með þessu. Það er gaman að verða vitni að þessu.“

Markmið samningsins er að þróa sjálfbærnivísa um nýtingu gróðurs, meta gróður og jarðveg landsins og vakta breytingar. Verkefnið mun kosta um þrjátíu milljónir króna á hverju ári. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×