Erlent

Hollendingar kjósa á morgun: Rutte og Wilders tókust á í kappræðum

Atli Ísleifsson skrifar
Hollenski forsætisráðherrann Mark Rutte og popúlistinn Geert Wilders tókust á í sjónvarpskappræðum í gær.
Hollenski forsætisráðherrann Mark Rutte og popúlistinn Geert Wilders tókust á í sjónvarpskappræðum í gær. Vísir/AFP
Hollendingar munu ganga að kjörborðinu og kjósa sér nýtt þing á morgun. Samskiptin við Tyrkland hefur einkennt síðustu daga kosningabaráttunnar.

Mikil spenna er í loftinu þar sem óljóst er hvort að flokkur forsætisráðherrans Mark Rutte eða popúlistans Geert Wilders verði stærstur. Jafnvel þó að flokkur Wilders verði stærstur á þingi þykir ólíklegt að hann verði hluti af nýrri ríkisstjórn þar sem aðrir flokkar hafa keppst við að útiloka samstarf við Wilders sem hefur lengi barist hatrammlega gegn komu innflytjenda, því sem hann kallar „íslamsvæðingu Evrópu“ og Evrópusamrunanum.

Tekinn í gíslingu af Erdogan

Wilders og Rutte mættust í sjónvarpskappræðum í gærkvöldi þar sem Wilders reyndi að ná til kjósenda með því að ráðast gegn Rutte.

„Þú hefur verið tekinn í gíslingu af Erdogan [Tyrklandsforseta]. Lokaðu hollensku landamærunum!,“ sagði Wilders.

Rutte var fljótur til svars. „Það er munurinn á því að tísta úr sófanum og að stýra landi. Ef maður er ábyrgur fyrir landinu þá verður þú að grípa til skynsamlegra lausna,“ sagði Rutte, en Wilders er virkur á Twitter.

Þykir hafa staðið upp í hárinu á Tyrkjum

Fréttaskýrendur segja bæði Frelsisflokk Wilders (PVV) og Þjóðarflokk Rutte (VVD) hafa hagnast á deilunum við tyrknesk stjórnvöld á síðustu dögum. Rutte hefur verið hrósað heima fyrir fyrir að hafa staðið upp í hárinu á Erdogan og ekki látið ásakanir Tyrkja um nasisma og fasisma beygja sig.

Sjá einnig:Allt sem þú þarft að vita um hollensku þingkosningarnar

Eftir nýjustu ásakanir Erdogan fékk Rutte annað tækifæri til að svara fyrir sig. „Orð Erdogan varða sífellt móðursjúkari. Við munum ekki fara niður á þetta plan,“ sagði Rutte.

Flokkur Rutte aðeins stærri

Í nýjustu skoðanakönnunum hefur flokkur Rutte mælst ögn stærri en flokkur Wilders, sem er álíka stór og flokkur Kristilegra demókrata (CDA). Á hæla þessara þriggja flokka fylgir svo Græni vinstriflokkurinn (Groen Links), en formaðurinn Jesse Klaver þykir hafa staðið sig sérlega vel í kosningabaráttunni. Vinstriflokkurinn D66 á einnig möguleika á að verða einn af stærstu flokkunum.

VVD-flokkur Rutte og Verkamannaflokkurinn unnu báðir sigra í kosningunum árið 2012 og mynduðu saman ríkisstjórn að kosningum loknum, eftir að fyrrverandi samstarfsflokkar VVD, Kristilegir demókratar og Frelsisflokkurinn, höfðu misst þingsæti í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×