Innlent

Skátar í æfingaferð björguðu ferðamanni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Nokkrir björgunarsveitarmenn úr sleðaflokki Hjálparsveitar skáta í Garðabæ aðstoðuðu um helgina ferðamann sem komist hafði í hann krappan á Þingvöllum. Maðurinn hafði fallið í sprungu sem var um fimm metra djúp og um fimmtíu sentímetrar á breidd.

Björgunarsveitarmennirnir voru í æfingaferð á Lyngdalsheiði og fengnir til þess að aðstoða ferðamanninn. Þeir létu belti og hjálm síga niður til ferðamannsins og hífðu hann svo upp, og slapp maðurinn frá þessu ómeiddur.

Hjálparsveitin birti myndir af björguninni á Facebook-síðu sinni, líkt og sjá má hér fyrir neðan.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum greindi einnig frá málinu á Facebook-síðu sinni. Þar segir: 

„Betur fór en á horfðist í gær þegar ferðamaður féll í gegnum snjóþekju niður í djúpa gjá. Tvær ungar konur höfðu farið út af göngustíg skammt utan við Langastíg. Konan féll ofan í mjóa djúpa gjá sem var hulin snjó sem gaf eftir. Hún hrapaði nokkra metra niður í sprunguna. Skömmu síðar var tilkynnt um atvikið í þjónustumiðstöð og fóru landverðir á vettvang. Konan reyndist ekki slösuð en nauðsynlegt var að kalla eftir aðstoð björgunarsveita til að ná henni upp úr gjánni. 

Á sömu stundu komu nokkrir félagar úr Hjálparsveit skáta í Garðabæ við í þjónustumiðstöðinni á leið úr æfingaferð innan við Þingvelli. Þeir fréttu af atvikinu og buðust til að aðstoða og náðu konunni fljótt úr sprungunni. Lögreglumenn sem voru á Þingvöllum vegna Silfru komu einnig á vettvang. Konunni varð ekki meint af og landverðir buðu þeim stöllum upp á kakóbolla í starfsmannahúsi áður en þær héldu áfram för sinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×