Stjórnvöld í Tyrklandi ætla að beita Hollendinga gagnaðgerðum eftir að tyrkneskum ráðherra var vísað úr landinu í morgun, að sögn Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands. The Guardian segir frá.
Hollensk yfirvöld vísuðu Fatma Betül Sayan Kaya, fjölskyldumálaráðherra Tyrklands, úr landi í morgun en hún var í heimsókn í Hollandi til þess að afla stuðnings á meðal landa sinna sem búsettir eru þar við umdeilda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort auka eigi völd Receps Erdogan forseta.
Yildirim sakar hollensk yfirvöld um að hafa brotið gegn friðhelgi sem Kaya nýtur sem ríkiserindreki þegar þau meinuðu henni um að komast á ræðisskrifstofu Tyrklands í Rotterdam.
Til uppþota kom við ræðisskrifstofuna og dreifði lögreglan mannfjölda sem hafði safnast þar saman, meðal annars með vatnsþrýstibyssum.
Hollensk stjórnvöld voru andsnúin heimsókn Kaya vegna þess að þingkosningar fara fram í Hollandi á miðvikudag. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, kallaði heimsókn Kaya ábyrgðarlausa þar sem hún hefði hunsað tilmæli yfirvalda um að koma ekki til Hollands. Með því hefðu tyrknesk stjórnvöld farið yfir strikið í samskiptum ríkjanna.
Deilur tyrkneskra og hollenskra stjórnvalda hörnuðu enn frekar í gær þegar þau síðarnefndu afturkölluðu leyfi tyrkneska utanríkisráðherrans til að lenda í Hollandi. Bón hans um leyfi til að ávarpa kosningafund til stuðnings Erdogan hafði áður verið synjað. Erdogan kallaði Hollendinga „leifar nasismans“ og fasista vegna þessa.
Yildirim sagði í dag að tyrknesk stjórnvöld myndu svara með „sterkum gagnaðgerðum“.
Erlent