Erlent

Segja reynt að koma í veg fyrir framburð fyrrverandi dómsmálaráðherrans

Kjartan Kjartansson skrifar
Sally Yates var aðstoðardómsmálaráðherra í tíð Obama. Hún var starfandi dómsmálaráðherra til skamms tíma eftir að Trump tók við.
Sally Yates var aðstoðardómsmálaráðherra í tíð Obama. Hún var starfandi dómsmálaráðherra til skamms tíma eftir að Trump tók við. Vísir/AFP
Talsmaður Hvíta hússins þvertekur fyrir að ríkisstjórn Donalds Trump hafi reynt að koma í veg fyrir að fyrrverandi starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna bæri vitni fyrir þingnefnd sem rannsakar tengsl forsetans og samstarfsmanna hans við Rússland.

Washington Post greindi frá því í dag að ríkisstjórn Trump hafi reynt að koma í veg fyrir að Sally Yates, sem var skipuð aðstoðardómsmálaráðherra af Barack Obama en Trump rak sem starfandi dómsmálaráðherra þegar hún neitaði að verja ferðabann hans, bæri vitni fyrir leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Nefndin rannsakar tengsl rússneskra embættismanna við forsetaframboð Trump.

Blaðið byggir þetta á skjölum sem blaðamenn þess fengu aðgang að. Stjórn Trump telur að stór hluti þess sem Yates gæti borið vitni um megi hún ekki ræða vegna þagnarskyldu. Yates átti að bera vitni fyrir nefndinni í þessari viku en formaður hennar aflýsti hins vegar frekari vitnaleiðslum skyndilega.

Demókratar vilja nefndarformaninn frá

Yates átti stóran þátt í rannsókninni sem beindist að Michael Flynn og samskiptum hans við rússneska sendiherrann. Flynn sagði af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi Trump þegar hann varð uppvís að því að segja ósatt um samskiptin.

Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins, hafnaði því alfarið að reynt hafi verið að stöðva vitnisburð Yates á blaðamannafundi í dag.

„Að gefa í skyn á einhvern hátt að við höfum staðið í vegi fyrir því er hundrað prósent rangt,“ fullyrti Spicer.

Washington Post brást við fullyrðingu Spicer með því að birta skjölin sem frétt blaðsins byggðist á.

Rannsókn þingnefndarinnar er í uppnámi eftir að formaður hennar, repúblikaninn Devin Nunes, fór á fund Trump til að greina honum frá rannsókninni án þess að vera búinn að upplýsa aðra nefndarmenn áður.

Fulltrúar Demókrataflokksins krefjast nú afsagnar Nunes en hann starfaði fyrir teymið sem hafði yfirsjón með valdatöku Trump, samkvæmt frétt New York Times.


Tengdar fréttir

Trump sakar Demókrata um að flækjast fyrir sér

Segir Demókrata vísvitandi tefja fyrir því að nýir ráðherrar geti tekið til starfa. Demókratar neita að mæta til atkvæðagreiðslu í þingnefndum þar sem ráðherravalið er til staðfestingar. Búast má við að val Trumps á nýjum hæst




Fleiri fréttir

Sjá meira


×