Lífið

Heimilið hefur áhrif á hugarástandið

Guðný Hrönn skrifar
Arna Þorleifsdóttir ásamt dóttur sinni, Ásu Láru Baldvinsdóttur.
Arna Þorleifsdóttir ásamt dóttur sinni, Ásu Láru Baldvinsdóttur. vísir/gva
Innanhússhönnuðurinn Arna Þorleifsdóttir lumar á góðum ráðum fyrir þá sem eru í vandræðum með að ná fram hlýleika á heimili sínu. Gott skipulag og rétt samspil áferða er meðal annars galdurinn.

„Það er mikilvægt að finna fyrir hlýleika á heimili sínu,“ segir Arna sem lumar á góðum ráðum sem gæða heimilið hlýleika. „Það er merkilegt hvað notalegt heimili hefur góð áhrif á hugarástand okkar. Ég hef margoft séð hvernig heimili í jafnvægi gerir fólk ánægðara,“ útskýrir Arna. Það er því vissara að vanda til verka þegar kemur að uppröðun og vali á mublum.

„Til að ná fram hlýleika má ekki að vera með of mikið af dóti. Fyrir mér er gott jafnvægi áferðargaldurinn, eitthvað sem gott er að snerta; t.d. sléttflauel og merinóull, fallega unninn viður sem gefur manni góða tilfinningu. Eins er gott að prýða heimilið með einhverju sem ilmar vel.“



Arna segir eitt fyrsta skrefið í að gera heimilið hlýlegt og notalegt sé að hugsa vel út í geymslupláss.

„Það þarf að koma öllum hlutunum vel fyrir, sumum í lokaðar hirslur en öðrum fallegum hlutunum á yfirborðinu þar sem þeir njóta sín. Þessar hirslur geta til dæmis verið upphengdir skápar, til að forðast að ofhlaða á gólfin.“

„Svo er gott að blanda saman vösum, greinum, plöntum og afskornum blómum til að fá náttúrulega strauma. Rétt sambland af textíl og efni gerir mikið, sem dæmi þá vinnur leður, flauel, ull og hör vel saman. Í stofu er fallegt að vinna með óbeina lýsingu og hafa vegg, gólf- og borðlampa í hornum. Þannig er hægt að leika sér með lýsinguna eftir því hvernig stuði maður er í. Og ekki má gleyma gardínunum en t.d. fallegar voile-gardínur geta aukið hlýleika,“ segir Arna sem vill að lokum hvetja lesendur til að vera óhræddir við að mála veggi dökka. „Ákveðinn hlýleiki fæst með því að mála veggi í dekkri tónum, t.d. bláum, grænum og gráum tónum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.