Innlent

Forstjóri Landspítalans áhyggjufullur vegna næsta árs

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH. mynd/landspítalinn
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, lýsir yfir áhyggjum af rekstri spítalans, og þá sérstaklega þegar litið er til ársins 2018. Hann segir ljóst að spítalinn þurfi áfram að takast á við aukna eftirspurn eftir þjónustu spítalans samhliða uppbyggingarstarfi eftir erfiða tíma í kjölfar hrunsins. Þá hefur hann einnig áhyggjur af skorti hjá hjúkrunarfræðingum.

Í vikulegum forstjórapistli sínum vísar hann til þingsályktunartillögu fjármálaráðherra um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022.  Hann segir ánægjulegt að lögð sé aukin áhersla á heilbrigðismál sem og uppbyggingu spítalans við Hringbraut. Hins vegar sé rekstur spítalans áhyggjuefni og að spítalinn eigi nú í samtali við heilbrigðisráðuneytið vegna þessa.

Þá segir hann að gera þurfi betur í að reyna að laða fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa hjá Landspítalanum.

„Það er á enga stétt hallað þó fullyrt sé að hjúkrunarfræðingar séu hryggjarstykkið í starfsemi spítalans. Öllum er ljóst að sjúkrahús verða ekki rekin án hjúkrunarfræðinga og það er okkur mikið áhyggjuefni að hafa ekki tekist að laða nógu marga nýja hjúkrunarfræðinga til starfa hjá okkur,“ segir Páll í pistlinum.

„Við deilum reyndar áhyggjum alls hins vestræna heims af hjúkrunarfræðingaskorti sem er veruleg ógn við heilbrigðiskerfin eins og við þekkjum þau. Það er afar mikilvægt að fleiri velji sér þetta mikilvæga starf sem framtíðarverkefni og okkar verkefni að tryggja að Landspítali sé vinnustaður sem hjúkrunarfræðingar sækist eftir að vinna á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×