Innlent

Vilja að ráðherra setji reglur um starfsnám

Sæunn Gísladóttir skrifar
Margir nemar reyna að fá eitthvað bitastætt á ferilskrá.
Margir nemar reyna að fá eitthvað bitastætt á ferilskrá. vísir/ernir
Bandalag háskólamanna (BHM) og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hyggjast senda sameiginlegt erindi til menntamálaráðuneytisins þar sem óskað er eftir að ráðuneytið móti reglur um starfsnám sem gildi fyrir alla háskólana. Allur gangur er á því hjá háskólunum hvernig samningur þeirra er við stofnanir og fyrirtæki um starfsnám.

Ríkisstofnanir auglýsa um þessar mundir launað og ólaunað starfsnám fyrir laganema í vor og sumar. Starfsnámið er metið til eininga hjá Háskóla Íslands. Meðal stofnana sem ekki greiða laun eru velferðarráðuneytið og Neytendasamtökin. Í svari frá velferðarráðuneytinu kemur fram að samstarfssamningar séu gerðir að frumkvæði háskólanna og er starfsnámið hluti af námi hlutaðeigandi nemenda, líkt og kemur fram og er skilgreint í samningunum sjálfum. Í auglýsingu frá Neytendasamtökunum kemur fram að ef vel gengur geti starfsnámið leitt til sumarstarfs.

Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM.Mynd/Styrmir Kári
Á síðasta ári gagnrýndi Bandalag háskólamanna ólaunað starfsnám sem WOW air auglýsti fyrir laganema. Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM, segir að sömu reglur eigi að gilda um ólaunað starfsnám hjá hinu opinbera.

„Við höfum verið að fylgjast með auglýsingum eftir starfsnemum og þar höfum við skoðað hvað er á bak við það. Það er allur gangur á því hvort það standist skoðun eða ekki,“ segir Erna.

„Þetta er að mínu mati ekki gott því síðan eru nemarnir í þeirri erfiðu aðstöðu að vera að reyna að fá eitthvað á ferilskrá sína og eru ekki að hugsa út í að það sé eitthvað bogið við það að þau séu að sinna störfum án þess að fá laun fyrir,“ segir Erna.

David Erik Mollberg, fráfarandi formaður LÍS, segir starfsnám umdeilt mál innan háskólasamfélagsins. „Það er til reglugerð um starfsnám í framhaldsskóla. Við verðum að fara að vinna í að þróa reglugerð á háskólastigi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×