Sport

Íslandsmetið skilaði Hlyni viðurkenningu í Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Andrésson.
Hlynur Andrésson. Mynd/emueagles.co
Langhlauparinn Hlynur Andrésson hefur verið að gera flotta hluti að undanförnu og hann hefur nú verið  útnefndur frjálsíþróttamaður vikunnar í miðríkjum Bandaríkjanna eftir frábæran árangur þann 1. apríl síðastliðinn.

Frjálsíþróttasamband Íslands segir frá þessu í dag en það má einnig finna frétt um þetta á heimasíðu Eastern Michigan háskólans.

Hlynur setti þá nýtt Íslandsmet í 5000 metra hlaupi þegar hann hljóp á 14:00,83 mínútum og var aðeins hársbreidd frá því að komast undir fjórtán mínúturnar.

Hlynur varð fyrsti Íslendingurinn til að hlaupa 5000 metrana undir 14:01,00 mínútu. Gamla Íslandsmetið átti Kári Steinn Karlsson en það var 14:01.99 mínútur og sett 26. mars 2010.

Hlaupið var frábærlega útfært hjá Hlyni og lauk með gríðarlegum endaspretti þar sem þrír hlauparar börðust um sigurinn og komu í mark með 27/100sek millibili. Hlynur bætti sinn besta tíma um heilar tíu sekúndur.

Þetta er í fyrsta sinn sem Hlynur fær þessa viðurkenningu en hann keppir fyrir Eastern Michigan háskólann sem var að eignast í þriðja sinn frjálsíþróttamann vikunnar í miðríkjum Bandaríkjanna.

Raunhæft er fyrir Hlyn að rjúfa 14 mínútna múrinn fyrstur íslendinga og ljóst að sá áfangi getur náðst þegar í næsta hlaupi. Það verður því fróðlegt að fylgjast með honum á næstunni.


Tengdar fréttir

Íslandsmetið í 5000 metra hlaupi féll í dag

Íslandsmetið í 5000 metra hlaupi karla féll í dag þegar Hlynur Andrésson hljóp á 14:00,83 mínútum á Stanford boðsmótinu í Kaliforníu. RÚV greinir frá.

Hlynur heldur áfram að hoppa upp afrekslistann

Millivegahlauparinn Hlynur Andrésson er að gera það gott í Bandaríkjunum í byrjun utanhússtímabilsins en hann stundar nám við Eastern Michigan háskólann í Ypsilanti í Michigan fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×