Fótbolti

Írskar lands­liðs­konur búnar að fá nóg af því að klæða sig inni á klósetti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Írsku landsliðskonurnar eru orðnar langþreyttar á viðhorfi írska knattspyrnusambandsins til liðsins.
Írsku landsliðskonurnar eru orðnar langþreyttar á viðhorfi írska knattspyrnusambandsins til liðsins. vísir/getty
Leikmenn írska kvennalandsliðsins í fótbolta hafa hótað því að fara í verkfall vegna óánægju með umgjörðina utan um liðið. Sökum þess er óvíst hvort vináttulandsleikur Írlands og Slóvakíu á mánudaginn fari fram.

Írsku landsliðskonurnar eru orðnar langþreyttar á slæmri umgjörð og viðhorfi írska knattspyrnusambandsins til liðsins.

„Við höfum þurft að skipta um föt á almenningssalernum á leiðinni í leiki,“ sagði Aine O'Gorman, einn reyndasti leikmaður írska liðsins, á blaðamannafundi í dag. O'Gorman ásamt 11 öðrum leikmönnum úr írska landsliðshópnum mættu á blaðamannafundinn þar sem ræddu um slæman aðbúnað liðsins.

Fyrirliðinn Emma Byrne segir það sé fullreynt að eiga samskipti við írska knattspyrnusambandið.

„Eins og staðan er núna erum við tilbúnar að gera hvað sem er. Við erum að berjast fyrir framtíð kvennafótboltans, þetta snýst ekki bara um okkur. Ég veit um leikmenn sem hafa gefist upp og hætt í landsliðinu,“ sagði Byrne sem hefur verið í landsliðinu í rúm 20 ár.

Talsmaður leikmannanna, Stuart Gilhooly, segir að það sé komið fram við þær eins og „fimmta flokks borgara“ og þær séu „drullan á skóm írska knattspyrnusambandsins.“

Gilhooly bætti því einnig við að írska knattspyrnusambandið hefði varað leikmennina við því að tala opinberlega um málið því það gæti skaðað ferilinn þeirra.

Írska knattspyrnusambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem það lýsir yfir vonbrigðum með hótanir landsliðskvennanna.

„Við fáum þennan úrslitakost þrátt fyrir að hafa fimm sinnum á síðustu mánuðum beðið leikmennina um að ræða við okkur en þeir hafa alltaf hafnað beiðninni,“ segir í tilkynningu frá írska sambandinu.

„A-landslið kvenna hefur alltaf fengið bestu mögulegu umgjörð eins og frábærar æfingaaðstæður, góð hótel, bestu sjúkraþjálfun og næringaráðgjöf. Meira fjármagn hefur verið sett í liðið á síðustu árum til að halda umgjörðinni sem bestri og svo var ráðinn þjálfari sem hefur unnið Meistaradeildina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×