Áætlunin verður rædd á borgarstjórnarfundi í dag en á blaðamannafundinum sagði borgarstjóri að hann teldi áætlunina bæði róttæka og félagslega þenkjandi en einnig stórhuga.
Áður hafði verið stefnt að því að byggja um 700 íbúðir á ári næstu fimm ár en í máli Dags kom fram að vegna fjölgunar starfa og áhrifa íbúðagistingar metur borgin það nú sem svo að byggja þurfi 1.250 íbúðir á ári til að mæta þörfinni.
Að því er fram kemur í áætluninni eru nú 2.577 íbúðir á byggingarsvæðum sem er á framkvæmdastigi. Alls eru 2.750 íbúðir á samþykktu deiliskipulagi, 4.177 íbúðir í formlegu skipulagsferli og 9.355 íbúðir á þróunarsvæðum sem eru í skoðun eða undirbúningi.
Í áætluninni er lögð áhersla á uppbyggingu leigu-og búseturéttaríbúða án hagnðarsjónarmiða í samvinnu við leigu-og búseturéttarfélög.
Um er að ræða 1.000 íbúðir sem byggðar eru í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, 1.340 stúdentaíbúðir, 450 búseturéttaríbúðir og 450 íbúðir eldri borgara. Þá á að byggja 105 hjúkrunarrými, yfir 100 sértæk búsetuúrræði fyrir fatlað fólk og yfir 600 íbúðir í Félagsbústöðum.
Nánar má lesa um húsnæðisáætlunina hér og fylgjast með umræðum um hana í borgarstjórn hér.