Innlent

Hnífsstunga á Metro: „Það var blóð út um allt“

Anton Egilsson skrifar
Blóðslettur voru út um allt gólf.
Blóðslettur voru út um allt gólf. Loftmyndir.is
Karlmaður á fertugsaldri var stunginn á skyndbitastaðnum Metro í Kópavogi í kvöld. Tveir piltar, báðir á tvítugsaldri, hafa verið handteknir grunaðir um að bera ábyrgð á árásinni. Var veitingasal staðarins lokað í kjölfar árásarinnar.

Einn starfsmanna Metro sem var á vakt þegar atvikið átti sér stað segir í samtali við Vísi að hún hafi verið fyrir aftan að þrífa þegar hún heyrði manninn reka upp öskur.  

„Ég kom svo fram og sá manninn og það var blóð út um allt.”

Eftir að hringt var á lögreglu átti hún samræður við stelpur sem voru inni á staðnum og urðu vitni að árásinni. Að þeirra sögn hafi maðurinn verið að fá sér að borða þegar tveir piltar hafi komið inn á staðinn og haft í hótunum við hann, að því er virðist að tilefnislausu. 

Þeir hafi síðan farið rétt út fyrir dyragætt staðarins þar sem annar piltanna stakk manninn. Maðurinn hafi í kjölfarið komið aftur inn og beðið viðstadda um að hringja á sjúkrabíl. Voru árásarmennirnir þá á bak og burt en þeir voru handteknir af lögreglu skömmu síðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×