Fótbolti

Viðar Örn raðar inn mörkum þar sem er einna erfiðast að skora í Evrópu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn skorar og skorar.
Viðar Örn skorar og skorar. vísir/afp
Fótboltaáhugamenn sem vilja sjá markaleiki ættu að kaupa sér áskrift að svissnesku úrvalsdeildinni nú eða þeirri sænsku. Þeir ættu aftur á móti að halda sér frá efstu deildunum í Rússlandi og Ísrael.

Í nýjustu úttekt fótboltarannsóknarhópsins CIES Football Observatory er farið yfir hvar er mest skorað í 31 bestu deild Evrópu. Meðaltalið var reiknað út frá öllum leikjum spiluðum í deildunum frá 1. júlí 2016 til 31. mars 2017.

Þar kemur fram að mesta fjörið er í Sviss þar sem 416 mörk voru skoruð í 126 leikjum á rannsóknartímabilinu eða 3,33 mörk í leik. Sænska úrvalsdeildin er í öðru sæti með 3,01 mörk í leik en 434 mörk voru skoruð í 144 leikjum í efstu deild Svíþjóðar á meðan rannsóknin stóð yfir.

Spænska deildin er efst þeirra fimm stóru en hún er í þriðja sæti á listanum með 2,90 mörk í leik en enska úrvalsdeildin í sjötta sæti með 2,84 mörk í leik. Ítalía kemur þar á eftir í sjöunda sæti með 2,84 mörk í leik en Frakkarnir skora aðeins 2,60 mörk í leik. Franska 1. deildin er í 17. sæti.

Leiðinlegasta deildin af þessum 31 er sú rússneska en þar var aðeins skorað 1,99 mark í leik á meðan rannsóknin var gerð. Rússarnir eru þeir einu sem ná ekki að skora að minnsta kosti tvö mörk í leik.

Næstleiðinlegasta deildin ef horft er aðeins til markafjölda er úrvalsdeildin í Ísrael en þar voru skoruð 388 mörk í 182 leikjum eða 2,13 mörk í leik yfir þetta tímabil frá 1. júlí 2016 til 31. mars 2017.

Íslenski landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson skoraði fimmtán af þessum 318 mörkum en hann er markahæsti leikmaður ísraelsku úrvalsdeildarinnar. Selfyssingurinn sem getur ekki hætt að skora er því að raða inn mörkum í þeirri deild Evrópu sem einna erfiðast er að skora í.

Hér má sjá allan listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×