Nunes er sakaður um að vinna að því að vernda hagsmuni forsetans í stað þess að vinna að sjálfstæðri rannsókn á háttalagi ríkisstjórnarinnar. Fremstur í að gagnrýna Nunes er demókratinn Adam Schiff, þingmaður Flórídaríkis í fulltrúadeildinni, en hann á sæti í nefndinni sem Nunes leiðir.
Hann sakar Nunes um að reyna að „afvegaleiða almenning“ frá því sem raunverulega skiptir máli. Ásakanirnar má rekja til þess að Nunes gaf nýlega út tilkynningu, án samráðs við aðra nefndarmeðlimi, þar sem hann hélt því fram að hann hefði undir höndum gögn sem bentu til þess að meðlimir í kosningateymi Trump hefðu verið hleraðir af ríkisstjórn Barack Obama.
Forsetinn greip fullyrðingar Nunes fegins hendi, enda höfðu engin gögn komið fram sem stutt hafa fullyrðingar hans um hleranir Obama. Nunes hefur neitað að sýna fjölmiðlum umrædd gögn og neitaði lengi vel að segja hvaðan þau komu en lét síðan hafa eftir sér að heimildarmenn hans hefðu verið tveir starfsmenn Hvíta hússins. Þá var hann jafnframt gagnrýndur fyrir að hlaupa til Trump með þær upplýsingar.
Sjá einnig: Byggði fullyrðingar sínar á fulltrúum Hvíta hússins
Síðastliðinn laugardag greip forsetinn aftur til Twitter, þar sem hann réðist á fjölmiðla fyrir að fjalla um tengsl hans við Rússa, í stað hlerana Obama, eins og má sjá hér að neðan.
Vegna ásakanna Schiff er ljóst að rannsókn nefndarinnar hefur verið sett á ís, en nefnd öldungadeildar bandaríska þingsins um njósnamál, sem og bandaríska alríkislögreglan rannsaka enn tengsl ráðamanna innan ríkisstjórnar Trump við Rússa.
Demókratar, sem og nokkrir aðilar innan Repúblikanaflokksins hafa kallað eftir því að Nunes segi af sér sem formaður nefndarinnar, en Nunes hefur neitað að verða við þeirri beiðni.
Þá hefur einnig verið kallað eftir því að sett verði á fót sjálfstæð nefnd sem fari með rannsókn málsins, málið sé talið það alvarlegt. Hefur meðal annars fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, frá árinu 2008, John McCain kallað eftir því.
Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, segir að ekki sé þörf á „enn einni rannsókninni“ á málinu, einungis til þess að tryggja að „niðurstaðan muni örugglega verða sanngjörn.“
When will Sleepy Eyes Chuck Todd and @NBCNews start talking about the Obama SURVEILLANCE SCANDAL and stop with the Fake Trump/Russia story?
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 1, 2017