Fótbolti

Elmar skoraði sigurmarkið og fullkomnaði endurkomuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elmar skoraði og lagði upp í dag.
Elmar skoraði og lagði upp í dag. vísir/getty
Theodór Elmar Bjarnason fullkomnaði endurkomu AGF gegn Viborg í sínum riðli í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Lokatölur 2-4, AGF í vil.

Elmar og Björn Daníel Sverrisson voru báðir í byrjunarliði AGF sem lenti undir á 36. mínútu. Viborg bætti svo öðru marki við sjö mínútum síðar.

En Mustapha Bundu minnkaði muninn í 2-1 fyrir AGF á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Elmari.

Danny Olsen jafnaði metin á 61. mínútu og sjö mínútum síðar skoraði Elmar sigurmark AGF. Þetta var fyrsta mark íslenska landsliðsmannsins á tímabilinu. Stephan Petersen skoraði svo fjórða mark AGF í uppbótartíma.

AGF er í 3. sæti síns riðils með 28 stig. Eftir að deildarkeppninni í Danmörku lauk var liðunum 14 skipt í þrjá riðla. Efstu sex liðin keppa sín á milli um meistaratitilinn en hin átta skiptust í tvo riðla.

Tvö efstu liðin í hvorum riðli komast í umspil um sæti í Evrópudeildinni á meðan neðstu tvö liðin fara í umspil um að halda sæti sínu í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×