Samtök hinsegin fólks í Rússlandi telja að rúmlega hundrað samkynhneigðir menn séu nú í haldi yfirvalda í Téténíu og sæti þar pyntingum. Amnesty International hafa fordæmt aðgerðirnar.
Téténía er sjálfstjórnarhérað í Rússlandi. Ramzan Kadyrov, forseti Téténíu, nýtur stuðnings Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og hefur í gegnum tíðina verið sakaður um ýmiskonar mannréttindabrot.
Greint var frá því í síðustu viku að um hundrað samkynhneigðir menn hefðu verið handteknir í héraðinu og að þrír þeirra hafi látist. Talsmaður Kadyrov hafnar ásökununum og sagði raunar að samkynhneigð fyrirfinndist ekki í héraðinu.
„Það er ómögulegt að ofsækja þá sem eru ekki til staðar,“ sagði talsmaðurinn.
Natalia Povlevskaya hjá samtökum hinsegin fólks segir að unnið sé að því að flytja fólk á brott og að samtökin séu meðvituð um skipulagðar aðgerðir til að fangelsa samkynhneigða menn í Téténíu.
„Það eru pyntingar að eiga sér stað með raflosti og barsmíðum með köplum. Allir þeir handteknu eru samkynhneigðir menn eða grunaðir um samkynhneigð,“ segir Poplevskaya í samtali við BBC.
Talið er að mennirnir séu í haldi í fangelsi nálægt Argun, um 20 kílómetrum frá borginni Grozny í Téténíu og að rúmlega þrjátíu menn séu látnir vera saman í klefa.
Segja yfirvöld í Téténíu stunda skipulagðar pyntingar á samkynhneigðum

Tengdar fréttir

Hafnar því alfarið að 100 samkynhneigðir menn hafi verið handteknir
Talsmaður forseta Téteníu, Ramzan Kadyrov, hafnar ásökunum um að lögregla í Téteníu hafi handtekið 100 samkynhneigða menn og sagði að raunar að samkynhneigð fyrirfinndist ekki í héraðinu.