Lífið

Risastór trampólíngarður í Garðabæinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Staðurinn opnar í Suðurhrauni 10 í haust.
Staðurinn opnar í Suðurhrauni 10 í haust. Rush Iceland
Trampólíngarður verður opnaður í Garðabæ í haust í 2500 fermetra húsnæði sem er í byggingu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rush Ísland en garðurinn er í samstarfi við Rush Parks. Staðurinn verður í Suðurhrauni 10.

Um er að ræða fyrsta trampólíngarðinn sem opnaður er hér á landi en meðal þess sem staðurinn mun bjóða upp á er skotboltadeild, slam dunk trampólín, trampólín fitness, og opið trampólín stuð. Salurinn verður sérstaklega innréttaður með löngum trampólínbrautum, trampólínveggjum og svampgryfju. Þar verða alls kyns tæki.

„Rush á Íslandi verður hluti af alþjóðlegri keðju af trampólíngörðum sem Rush Extream Sports of USA rekur víða um heim eins og t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi, Finnlandi, á Nýja sjálandi og í Suður afríku. Þá stendur til að opna garða í Danmörku og í Argentínu,“ segir í tilkynningunni.

Upphafið af trampólíngörðum eins og þeim sem Rush Ísland opnar má rekja til Bandaríkjanna árið 2004 en mikill vöxtur og þróun hefur verið í rekstri og afþreyingu í kringum trampólíngarða um allan heim að því er segir í tilkynningunni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×