Erlent

N-Kóreumenn hóta að varpa kjarnorkusprengju á Bandaríkin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Norður-Kóreumenn halda áfram að hóta Bandaríkjunum.
Norður-Kóreumenn halda áfram að hóta Bandaríkjunum. Vísir/EPA
Norður-Kóresk yfirvöld munu skjóta upp kjarnaoddum og beina þeim að Bandaríkjunum, ef herskipin sem bandarísk yfirvöld hafa sent að Kóreuskaga, gera eitthvað til þess að ógna yfirvöldum þar í landi. Reuters greinir frá.

Þessar hótanir komu fram í norður-kóreska ríkisfjölmiðlinum og hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, nú þegar tjáð sig um þær á Twitter. Þar segir hann að Bandaríkin muni takast á við Norður-Kóreu með, eða án Kína.

Spennan á Kóreuskaga hefur aukist mikið nýverið, vegna fregna af kjarnorkuvopnaþróun og tilraunum Norður-Kóreumanna. Talið er að norður-kóresk yfirvöld muni brátt gera enn eitt tilraunaskotið með kjarnorkusprengju.

Á blaðamannafundi í dag, segir Sean Spicer, blaðamannafulltrúi Hvíta hússins, að bandarísk yfirvöld telji ekki ástæðu til þess að óttast þessar hótanir Norður-Kóreumanna, þar eð engin gögn bendi til þess að þeir séu komnir nógu langt á veg í þróun kjarnaodda til þess að geta varpað slíkum sprengjum á bandarískt meginland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×