Innlent

Var tilbúinn að kljást við höggið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vél Primera Air
Vél Primera Air mynd/metúsalem björnsson
„Maður kallar ekki allt ömmu sína en ég var bara virkilega hræddur,“ segir Hreimur Örn Heimisson söngvari sem var farþegi í vél Prim­era Air sem rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli í gær.

Hreimur segir flugið hafa verið eins og hvert annað flug framan af. „Þegar okkur finnst við vera að fara að snerta brautina þá rífur vélina upp. Flugmaðurinn hætti sem sagt við og tók annan hring,“ segir hann.

„Sá hringur var ekki nógu góður. Það sátu allir uppspenntir og það heyrðist ekkert. Það var ekkert tilkynnt,“ segir Hreimur enn fremur.

Hreimur Örn Heimisson. Fréttablaðið/Pjetur
Hreimur segist hafa fundið það mjög vel þegar vélin lenti loks að hún var á of miklum hraða. „Ég fann það sjálfur að ég spenntist alveg upp og við Vignir Snær Vigfússon sem sátum hlið við hlið vorum komnir í stellingar og tilbúnir að kljást við höggið.“

Enn fremur segist Hreimur halda að mjög litlu hafi munað að hræðilega hafi farið.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segir Rannsóknarnefnd samgönguslysa nú rannsaka málið. „Þeir eru búnir að vera að taka viðtöl við áhöfn, að mér skilst. Svo verða allar upplýsingar skoðaðar. Ástand á braut, flugriti og allt það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×