Miðjumaðurinn Emmanuel Macron mun sigra Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, með yfirburðum í næstu umferð frönsku forsetakosninganna ef fyrstu spár ganga eftir.
Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Ipsos telur að Macron muni hljóta um 62% atkvæða gegn 38% Le Pen í könnun sem fyrirtækið framkvæmdi fyrir France Télévisions, franska ríkissjónvarpið.
Þrátt fyrir að enn séu tvær vikur þangað til að Frakkar ganga aftur að kjörborðinu í seinni umferð kosninganna, og kannanir beggja vegna Atlantsála hafi ekki verið óbrigðular í kosningum síðasta árs, eru niðurstöður Ipsos taldar gefa nokkuð skýra mynd af stöðu mála.
Sjá einnig: Macron og Le Pen efst
Þannig spáði fyrirtækið í aðdraganda kosninganna í kvöld að Macron myndi standa uppi sem sigurvegari með um 24% atkvæða, Le Pen fengi um 21% og Jean-Luc Mélenchon, frambjóðandi vinstrihreyfingarinnar La France Insoumise, hlyti um 19% atkvæða.
Eins og Vísir greindi frá var það nákvæmlega sá atkvæðafjöldi sem fyrstu útgönguspár gerðu ráð fyrir þegar kjörstöðum lokaði klukkan 18 í kvöld.
Það skyldi því engan undra að stuðningsmenn Macron hafi strax tekið að fagna sigri í kvöld og hyllt sinn mann sem næsta forseta Frakklands.
Í ræðu sinni í kvöld sagði Macron að hann vildi vera forseti „ættjarðarvina sem standa nú frammi fyrir ógninni sem stafar af þjóðernissinnum“ og fór ekki á milli mála að hann vísaði þar til stuðningsmanna Þjóðfylkingar Le Pen.
Sjá einnig: Le Pen sigri hrósandi: „Kominn tími til að frelsa frönsku þjóðina“
Hún hefur verið harðorð í garð þessa fyrrum bankamanns sem styður áframhaldandi veru Frakka í Evrópusambandinu, ólíkt henni. Hefur Le Pen sagt að Macron sé frambjóðandi fjármagnseigenda og að frjálslynd viðhorf hans muni kalla yfir Frakkland óstöðvandi straum hælisleitanda og hryðjuverkamanna - að ótaldri hömlulausri samkeppni útlenskra stórfyrirtækja sem muni leggja franskan efnahag í rúst.
„Á aðeins einu ári höfum við gjörbreytt ásýnd franskra stjórnmála,“ sagði Macron við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna sem hafa ærna ástæðu til að gleðjast ef fer sem horfir.
