Innlent

Fær leyfi til jarðhitarannsókna á hafsbotni

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Geir Brynjar Hagalínsson, framkvæmdastjóri North Tech Energy
Geir Brynjar Hagalínsson, framkvæmdastjóri North Tech Energy Vísir/Stöð 2
Orkustofnun veitti fyrr helgi fyrirtækinu North Tech Energy leyfi til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum á hafsbotni við strendur Íslands. Framkvæmdastjóri telur þetta eitt stærsta orkuverkefni sem farið verður í á Íslandi.

North Tech Energy ehf. fékk leyfi til leitar og rannsóknar á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum á hafsbotni. Annars vegar við Reykjaneshrygg og hins vegar fyrir Norðurlandi. Eftir leyfisveitinguna er framkvæmdastjórinn er bjartsýnn.

„Ég tel að þetta gæti orðið eitt stærsta orkuverkefni sem farið verður í á Íslandi,“ segir Geir Brynjar Hagalínsson, framkvæmdastjóri North Tech Energy.

Vinna við verkefnið hófst í Aberdeen í Skotlandi árið 2009 eftir að Geir hafði setið fyrirlestur hjá prófessor um orkumál í Bretlandi. Tilgangur rannsóknanna er að afla upplýsinga þar sem metin verða ætluð háhitasvæði til orkuframleiðslu.

Á fyrri hluta rannsóknartímabilsins er gert ráð fyrir leit að fýsilegum svæðum. Rannsóknarleyfið veitir svo North Tech Energy forgang á nýtingarleyfi til raforkuframleiðslu.

„Miðað við þau gögn sem að ég hef fengið upp í háskóla, Íslensku orkurannsóknum og Orkustofnun og fleirum að þá er rosalegur hiti sem stígur upp úr hafsbotni bæði úti á Reykjanesi og og fyrir norðan,“ segir Geir.

Sótt var um leyfi til rannsókna til þriggja ára en er gert ráð fyrir að þær hefjist á vettvangi í júní á næsta ári en innan þeirra tímamarka er áætlað að niðurstaða fáist í hagkvæmni virkjunarkostsins.

„Ég verð nú að viðurkenna að fyrst þegar ég kom inn í Orkustofnun að þá brostu þeir. En síðustu tvö ár hafa þeir unnið mjög hart í þessu með mér,“ segir Geir.

Geir ólst upp í Blönduvirkjun þar sem faðir hans var stöðvarstjóri og í rúm tuttugu ár hefur hann unnið að háhitaborunum á olíu og gasi á landi og sjó. Reynslan hefur hjálpað honum að draga saman alla þá þætti sem þurfti til að koma verkefninu af stað. Ein af grunnhugmyndunum er að vernda náttúruna en um leið auka orkuframleiðsluna.

„Þetta náttúrulega sést minna úti og sá guli, þorskurinn, hann hefur ekki látið þetta trufla sig þó það standi einhver mannvirki úti á sjó,“ segir Geir.

Finnist jarðhitaorka á svæðinu getur það skapað á þriðja hundrað störf tengdum framleiðslunni.

„Þetta er ekkert ósvipað því sem er verið að gera á Drekasvæðinu,“ segir Geir.

Eitthvað kostar þetta?

„Já. Þetta er mjög dýrt,“ segir Geir.

Einhverjar tölur?

„Nei ég er ekki með neinar tölur enn þá sem ég get svona skotið út til þess að standa við þær,“ segir Geir.

En hleypur á milljörðum?

„Milljörðum já, milljörðum,“ segir Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×