Enski boltinn

Gylfi skoraði stórkostlegt mark á Old Trafford og tryggði Swansea stig | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Swansea City stig gegn Manchester United á Old Trafford þegar hann jafnaði metin með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Lokatölur 1-1.

Þetta var níunda mark Gylfa í ensku úrvalsdeildinni í vetur og sjötta mark hans beint úr aukaspyrnu síðan í ágúst 2014.

Wayne Rooney kom United yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks með marki úr umdeildri vítaspyrnu.

Staðan var 1-0 fram á 79. mínútu þegar Rooney braut klaufalega á Jordan Ayew fyrir utan vítateig. Gylfi steig fram og skoraði með glæsilegu skoti yfir varnarvegginn og í hornið. Frábært mark hjá íslenska landsliðsmanninum sem hefur nú skorað í þremur leikjum á Old Trafford í röð.

Fleiri urðu mörkin ekki og liðin sættust á skiptan hlut.

Swansea er enn í 18. sæti deildarinnar, nú tveimur stigum á eftir Hull sem er í 17. sætinu. United er áfram í 5. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×