Skoðun

Fiskur á silfurfati

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Þorskstofninn hefur aldrei mælst stærri en við síðustu mælingar Hafrannsóknastofnunar. Það verður því að teljast afar líklegt að tillaga um viðbótarkvóta komi fram fyrir næstu fiskveiðiár enda hefur kvótinn nærri tvöfaldast síðustu 10 fiskveiðiár þrátt fyrir lakari mælingar.

Ríkisstjórnin, með sjávarútvegsráðherra Viðreisnar í fararbroddi málaflokksins, vill ekki breyta lögum um fiskveiðistjórnun svo hægt sé að bjóða út viðbótarkvótann. Þess vegna verður honum að óbreyttu skipt á milli núverandi kvótaeigenda. Alþingi er í fullum rétti til að stöðva þann gjafagjörning. Alþingi ætti að lögleiða réttlátari meðferð fiskveiðiauðlindarinnar fyrir hönd eigenda hennar. Í það minnsta ætti að stöðva áform ríkisstjórnarinnar um að færa viðbótarkvóta útgerðinni á silfurfati.

Með útboði á viðbótarkvóta fengist verðmæt reynsla af útboðsleiðinni sem gæti nýst vel í viðræðum sáttanefndar þeirrar sem sjávarútvegsráðherra hyggst skipa á næstunni um fiskveiðistjórnunarkerfið. Með reglum um útboð væri mögulegt að auðvelda aðkomu útgerða frá viðkvæmari svæðum landsins, stuðla að nýliðun og vinna gegn samþjöppun aflaheimilda.

Ef tækifærið er ekki nýtt verður það útboð sem fyrir er styrkt enn frekar, þ.e.a.s. útboð á kvóta sem nú er í höndum útgerðarinnar sjálfrar. Á þeim útboðsmarkaði fór kílóið af þorski á 211 kr. í haust en gengur nú um stundir á 180 kr. en 11 kr. renna til ríkissjóðs í formi veiðigjalds. Skólar og heilbrigðisstofnanir eru á sama tíma í rekstrarvanda vegna fjárskorts og vegirnir að molna undan okkur.

Hvers vegna ætli stjórnvöldum finnist mikilvægara að færa útgerðinni viðbótarkvóta á spottprís frekar en að fá fyrir hann markaðsverð og láta tekjurnar renna til velferðarþjónustu fyrir almenning? Hvort sagðist Viðreisn fyrir kosningar ætla að gæta betur að sérhagsmunum eða hag almennings? Þjóðin á þessa auðlind og á rétt á sanngjörnu gjaldi fyrir afnotaréttinn af henni.

Á dögunum átti ég samtal við sjávarútvegsráðherra og þingflokksformann Viðreisnar um þessi mál í þinginu. Báðar lofuðu þær nefndum en engum efndum og líklega er það einmitt forsenda stjórnarsamstarfsins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×