Innlent

Akreinum fækkar í bili á Miklubraut

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Undirbúningur fyrir framkvæmdirnar.
Undirbúningur fyrir framkvæmdirnar. Mynd/Reykjavík
Framkvæmdir á Miklubraut við Klambratún hefjast í dag. Verður akreinum til vesturs fækkað tímabundið frá Lönguhlíð og að Rauðarárstíg. Því má búast við töfum í morgunumferðinni á svæðinu á næstunni þar sem mun fleiri bílar stefna inn í miðborgina en út úr henni á morgnana.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg eru ökumenn því hvattir til að leggja fyrr af stað en venjulega, sem og að sýna tillitssemi og aðgát á svæðinu.

„Það kemur þarna heil ný forgangsrein fyrir strætó og það verða endurnýjaðar gangstéttir og hjólaleiðir,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar.

Verða göngu- og hjólastígar aðskildir, götulýsing endurbætt eftir þörfum og biðstöðvar strætó endurgerðar. Fyrrnefnd forgangsrein strætó til austurs verður sunnan Miklubrautar og meðfram húsagötu. Til að dempa hljóðmengun verður veggur steyptur á milli húsagötunnar og Miklubrautar.

„Þetta er bara í takt við stefnu borgarinnar, að efla almenningssamgöngur eins og mögulegt er. Einn mikilvægasti þátturinn í því eru forgangsreinar fyrir strætó,“ segir Hjálmar enn fremur.

Heildarkostnaður við framkvæmdina er um 350 milljónir króna að því er kemur fram í tilkynningu borgarinnar. Hlutur Reykjavíkurborgar er um 170 milljónir króna en verkið er unnið í samvinnu við Vegagerðina og Veitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×