Fótbolti

Guðbjörg fór meidd af velli og Anna Björk skoraði

Guðbjörg Gunnarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir voru báðar í byrjunarliði Djurgarden sem tapaði á heimavelli fyrir Kvarnsvedens á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, 1-2.

Djurgarden komst yfir með marki á 22. mínútu og hélt forystunni allt fram á 60. mínútu. Á 76. mínútu þurfti Guðbjörg að yfirgefa völlinn vegna meiðsla í nára.

Sigurmark Kvarnsvedens kom svo þegar ein mínúta var liðin af uppbótartíma en Djurgarden er með þrjú stig eftir fjóra leiki.

Kristianstads, lið Elísabetar Gunnarsdóttur, mátti einnig sætta sig við 2-1 tap á heimavelli þegar liðið fékk Linköpings í heimsókn. Sif Atladóttir lék allan leikinn í vörn Kristianstads.

Öllu betur gekk hjá þriðja íslendingaliðinu þegar Limhamn Bunkeflo, lið Önnu Bjarkar Kristjánsdóttur, gerði góða ferð til Vittsjö og vann 3-2. Anna Björk skoraði annað mark Limhamn Bunkeflo í leiknum.

Djurgarden er í 11. sæti með 3 stig eftir 4 leiki, Kristianstads er í 10. sæti, sömuleiðis með 3 stig eftir fjóra leiki en Limhamn Bunkeflo er í 8. sæti með 4 stig eftir 4 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×