Enski boltinn

Segir Mourinho niðurlægja leikmenn

Jose Mourinho.
Jose Mourinho. vísir/getty
Chris Sutton, fyrrum framherji Blackburn, er ekki ánægður með hvernig Jose Mourinho hefur verið að tala um suma leikmenn sína hjá Manchester United.

Mourinho hefur, að því er virðist, gagnrýnt Luke Shaw, Chris Smalling og Phil Jones fyrir að leggja ekki nógu mikið að sér í endurhæfingum sínum eftir meiðsli þeirra.

Sutton sagði í viðtali við BBC að með þessu væri hann mögulega að fá leikmenn upp á móti sér.

„Það er afar ósanngjarnt að gagnrýna þá fyrir að spila ekki í gegnum sársaukann,“ sagði Sutton.

Sá sem hlaut mestu gagnrýnina hjá Mourinho var bakvörðurinn Luke Shaw, sem meiddist á nýjan leik á laugardag og spilar ekki meira á tímabilinu.

Mourinho sagði að það væri ekki hægt að bera Shaw saman við hina bakverðina í liði United.

„Ég get borið hann saman við þá, hvernig hann æfir og ber sig, einbeitinguna og metnaðinn. Hann á langt í land,“ sagði Mourinho sem gagnrýndi hann einnig fyrir frammistöðuna í leik United og Everton fyrir mánuði síðan.

„Hann var fyrir framan mig og ég tók allar ákvarðanir fyrir hann í leiknum. Hann verður að laga sinn fótboltaheila.“

Mourinho neitaði að tjá sig um stöðu Phil Jones og Chris Smalling um helgina en báðir eru sagðir leikfærir fyrir leik United gegn Celta Vigo í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Sutton segir að aðferð Mourinho sé ólík öllu því sem hann þekkir. „Mínir stjórar hafa sagt sitt í búningsklefanum en svo stutt leikmenn opinberlega.“

„En ég tel að hann sé að senda skilaboð til stjórnar félagsins að hann vilji ekki vera með þessa leikmenn. Hann er ekki vitlaus - hann veit alveg hvað hann er að gera.“


Tengdar fréttir

Shaw ætlar að berjast fyrir sæti sínu

Enski bakvörðurinn Luke Shaw hjá Man. Utd hefur fengið það óþvegið frá stjóranum sínum, Jose Mourinho, upp á síðkastið en ætlar ekki að láta það buga sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×