Erlent

Theresa May: „Juncker mun komast að því að ég get verið fjári erfið“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Theresa May.
Theresa May. vísir/epa
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, heitir því að hún muni verða hörð í horn að taka, í komandi Brexit samningaviðræðum. Hún segir að Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins muni komast að því að hún geti verið „fjári erfið kona.“ Guardian greinir frá.

Ummælin koma í kjölfar þess þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung birti samræður úr kvöldverðarboði May, með Juncker, þar sem kemur fram að þeim hafi lent saman í boðinu.

May hafi lýst yfir vilja til að klára samninga um stöðu breskra og evrópskra ríkisborgara í júní. Juncker hafi hins vegar brugðist ókvæða við og sagt að hann „væri tíu sinnum meira efins,“ um að hægt væri að klára samninga um ríkisborgara í næsta mánuði.

Samkvæmt heimildarmönnum innan Evrópusambandsins, eru áhyggjur uppi um það innan sambandsins að engir samningar muni nást, þar sem Bretar misskilji komandi útgönguviðræður. Breskir ráðamenn virðist ekki hafa grunnvitneskju um það hvernig málum sé háttað í Brussel. 

Áhyggjur hafa því að sama skapi kviknað í Bretlandi, um getu og hæfni May til þess að leiða samningaviðræðurnar við sambandið og hefur Nick Clegg, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra og leiðtogi frjálslyndra demókrata, sagt að May líti út fyrir að halda að hún geti skipað evrópskum ráðamönnum fyrir, „líkt og þeir væru starfsmenn breskra ráðuneyta.“

May hefur sjálf sagt að hún geri fastlega ráð fyrir því, að spennan á milli Bretlands og Evrópusambandsins, muni aukast á næstu mánuðum, á meðan viðræðum stendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×