Innlent

Rússar segja NATO-fund á Svalbarða brot á sáttmála

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ákvörðun NATO um að halda þingmannafund á Svalbarða í næstu viku hefur vakið hörð viðbrögð Rússa. Þeir telja slíkan fund brot á Svalbarðasáttmálanum, sem bannar hernaðarumsvif á heimskautaeyjunum. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Vegna Svalbarðasáttmálans frá árinu 1920 er staða eyjaklasans einstök að þjóðarétti. Sáttmálinn viðurkennir umráðarétt Noregs yfir Svalbarða en heimilar jafnframt öðrum aðildarþjóðum sáttmálans að nýta auðlindir Svalbarða til jafns við Norðmenn og koma sér þar upp aðstöðu. Skýrt er þó tekið fram í sáttmálanum að Svalbarðasvæðið megi aldrei nota í hernaðarlegum tilgangi.

Frá fjarskiptastöð við Longyearbyen á Svalbarða.Mynd/Bjarki Kaldalóns Friis.
Ákvörðun norskra stjórnvalda að bjóða Svalbarða undir fund NATO-þingsins dagana 9. og 10. maí hefur nú aukið á spennu í samskiptum Noregs og Rússlands og hafa rússnesk stjórnvöld brugðist hart við og fordæmt fundarhaldið. Þau segja NATO-fund á Svalbarða ögrun og gegn anda Svalbarðasáttmálans og hafa jafnframt ýjað að því að forræði Noregs yfir Svalbarða sé ekki ótvírætt. 

Atlantshafsbandalagið ver ákvörðunina með því að NATO-þingið sé sjálfstætt og hafi enga beina aðkomu að stefnumörkun NATO né hernaðaraðgerðum þess en á fundinum á að ræða umhverfis- og efnahagsmál norðurslóða.

Frá Barentsburg, rússneska kolanámubænum á Svalbarða.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Fulltrúi Íslands á Svalbarðafundinum verður Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, en hún er varaformaður Íslandsdeildar NATO-þingsins. Samkvæmt upplýsingum Alþingis mun Lilja jafnframt stýra málstofu á fundinum. 

Einhverjir myndu telja Rússa kasta steini úr glerhúsi því löngum hefur leikið grunur á að í rússneska kolanámubænum Barentsburg á Svalbarða hafi fleira verið stundað en bara kolavinnsla. Ræðismannsskrifstofan þar þótti grunsamlega fjölmenn á kaldastríðsárunum og þyrluflugvöllur Rússa þar þótti líkari herflugvelli með flóknum tækjum, ratsjám og loftnetum.

Ræðismannsskrifstofa Sovétríkjanna á Svalbarða þótti grunsamlega fjölmenn á dögum kalda stríðsins.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×