Innlent

Mikið tjón á stærstu skólastofum Háskólatorgs

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lekinn varð á Háskólatorgi.
Lekinn varð á Háskólatorgi. Vísir/Valgarður
Töluvert tjón er eftir vatnsleka á Háskólatorgi í gærkvöldi. Alls tók dælistarf sex til sjö klukkutíma í gærkvöldi. Slökkviliðinu barst útkall vegna lekans klukkan hálf sjö og var að störfum til tíu. Þá tóku við verkakar sem voru að ströfum til klukkan eitt í nótt.

Bjarni Grétar Bjarnason, umsjónarmaður Háskólatorgs, segir að ekki sé vitað með vísu hvað olli lekanum en að líklegt sé að dælu hafi slegið út.

„Við erum ennþá að ræða málin hérna en það hefur einhver einhverju slegið út þannig að brunavarnardælurnar sem áttu að sjá um að dæla þessu vatni út þær slá út,“ segir Bjarni.

Lekinn var í tveimur skólastofum á neðstu hæð Háskólatorgs og er um að ræða stærstu stofurnar í byggingunni.

„Þetta eru tvær skáhallandi stofur, 180 manna stofur sem eru teppalagðar og alveg neðst í stofunum, þar sem lægsti punkturinn er, þá fór allt á kaf. Í báðum stofunum upp að kannski 160 sentímetra hæð,“ segir Bjarni.

Mikið tjón

Í annari stofunni náði vatnið upp á annan bekk og í hinni upp á þann þriðja.

„Þetta er frekar mikið tjón. Það þarf allavega að taka öll teppin, rífa þetta upp og skipta um teppi. Svo er spónninn eitthvað farinn að flagna af kennsluborðinu og bekkjunum, fyrstu þremur.“

Vorpróf eru nú í fullum gangi í háskólanum og verða þau próf sem áttu að vera í stofunum færð annað.

„Það eru próf í gangi og það eru 60 manns í prófi í sitthvorum stofum. það þarf að færa þau eitthvað annað. Þetta er svona heppilega óheppilegur tími. Það er hægt að leggja niður kennsluna en þú leggur ekkert niður prófin.“

Bjarni segist vona að viðgerðir hefjist sem allra fyrst.

„Það eru stórar ráðstefnur hérna í sumar þannig að vonandi fyrir það, þetta fær einhvern forgang held ég.“


Tengdar fréttir

Mikill vatnsleki í Háskóla Íslands

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst útkall vegna lekans klukkan hálf sjö og var slökkvilið að störfum við að dæla vatni til klukkan tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×