Erlent

Þingmenn hlæja að boði Putin

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Vísir/AFP
Vladimir Putin, forseti Rússlands, bauðst í morgun til þess að veita bandaríska þinginu upplýsingar um hvað fór fram á fundi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í síðustu viku. Yfirvöld í Rússlandi segja Trump ekki hafa sagt utanríkisráðherranum frá neinum leyndarmálum, eins og Trump hefur verið sakaður um.

Í fyrstu sagði Putin að hann ætti upptöku af fundinum, en aðstoðarmaður hans sagði seinna að hann hefði meint minnisblað um hvað fór fram á fundinum.

Þá hló Putin að þeim ásökunum um að Trump hefði sagt Lavrov einhver leyndarmál og sagðist ætla að skamma Lavrov fyrir að segja sér ekki þessi leyndarmál.

„Hann deildi þessum leyndarmálum ekki með okkur. Ekki með mér, né fulltrúum leyniþjónusta okkar. Það er mjög slæmt af honum,“ sagði Putin samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Sjá einnig: Versti dagur forsetatíðar Trump.

Bandarískir þingmenn, úr báðum flokkum, hafa þó ekki tekið vel í þetta boð og hafa jafnvel hlegið að því.

Einn þeirra var Marco Rubio, sem var í viðtali við Fox í dag. Washington Post tók saman nokkur ummæli í dag.

„Ég hef ekki mikla trú á minnispunktum Putin,“ sagði Rubio. Þá bætti hann við: „Og ef þetta kemur í tölvupósti mun ég ekki smella á fylgiskjalið.“

Susan Collins sló á svipaða strengi og sagði við CNN að það væri einfaldlega fáránlegt að þau myndu sættast á einhverjar sannanir frá Putin

Adam Schiff hló þegar hann var spurður út í boðið á CNN.

„Það síðasta sem að forsetinn þarf núna er að Putin komi honum til varnar. Þetta verður bara skringilegra með hverjum deginum sem líður, en ég held að við ættum ekki láta þetta draga athygli okkar frá þessum alvarlegu ásökunum.“

Þingmaðurinn Adam Kinzinger lá ekki á skoðun sinni og sagði að sönnunargögn Putin yrðu ekki tekin marktæk í þinginu.

„Ég tala ekki við morðóða einræðisherra eins og Vladimir Putin, svo að hans orð hafa ekki mikið gildi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×