
„Ég held að það sé ljóst að það verða hreinskiptnar umræður um stöðu flokksins. Flokkurinn skiptist í tvær eða jafnvel þrjár fylkingar,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður. Staða flokksins sé ömurleg. „Slæm útreið í kosningum, við fengum ekki stjórnarmyndunarumboðið og hækkum ekkert í könnunum á meðan fylgi allra annarra er á hreyfingu. Menn eru ekki sáttir.“
Í stjórnarmyndunarviðræðunum sem stóðu frá kosningum í lok október og fram í janúar fengu Framsóknarmenn ekki stjórnarmyndunarumboðið þegar búið var að reyna alla stærri flokka. Þess í stað ákvað forseti Íslands að enginn einn flokksformaður fengi umboðið. Á meðan stjórnarþreifingar fóru fram skrifaði Fréttablaðið ítrekaðar skýringar þar sem tæpt var á fjarveru Framsóknarflokksins við stjórnarmyndunarborðið. Gunnar Bragi segir það hafa reynst flokksmönnum skellur að fá ekki umboðið.
Nýtt flokksþing Framsóknar hefði átt að fara fram næsta vor. Háværar raddir eru uppi um að flýta því til haustsins.

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, segir ljóst að fólk muni skiptast á skoðunum á fundinum. „Svo fer örugglega eftir stemningu hvort komi tillaga um að flýta flokksþingi. Það er ótímabært að segja til um það.“ Hún segir það hafa verið óheppilegt að hafa flokksþingið svo skömmu fyrir kosningar síðasta haust. „Svo fóru kosningarnar eins og þær fóru. Því er ekki að neita að árangurinn hefði mátt vera betri.
Það er alveg ljóst að menn verða að ná flokknum saman. Það er lykilatriði að árangri,“ segir Lilja.
Ekki náðist í Sigurð Inga, formann Framsóknarflokksins, við vinnslu fréttarinnar.