Erlent

Þrír í haldi vegna hvarfs ungrar sænskrar konu

Atli Ísleifsson skrifar
Tova Moberg hvarf sporlaust aðfaranótt sunnudagsins.
Tova Moberg hvarf sporlaust aðfaranótt sunnudagsins. Vísir/Getty
Lögregla í Svíþjóð hefur handtekið þrjá menn vegna gruns um að tengjast hvarfi ungrar konu. Hin nítján ára Tova Moberg frá bænum Njutånger hvarf sporlaust aðfaranótt gærdagsins.

Umfangsmikil leit lögreglu stendur nú yfir nálægt bænum Njutånger, skammt frá Hudiksvall, um þrjú hundruð kílómetrum norður af Stokkhólmi.

Í frétt SVT kemur fram að lögregluhundar og þyrlur séu notaðar við leit í kringum fasteign í skóglendi sunnarlega í sveitarfélaginu Hudiksvall. Er lögregla búin að girða af stórt svæði, en sími hennar á síðast að hafa sent frá sér boð þar.

Lögregla lýsti eftir konunni í gær og er upplýsinga enn safnað. „Við erum enn að kortleggja hvað hafi gerst,“ segir Matilda Isaksson, yfirmaður hjá sænsku lögreglunni.

Lögregla greindi svo frá því í morgun að þrír menn hafi verið handteknir vegna gruns um að tengjast hvarfinu á Tova. Saksóknari ákvað að mennirnir skyldu kallaðir til yfirheyrslu vegna upplýsinga sem lágu fyrir og voru þeir svo handteknir vegna gruns um mannrán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×