Fótbolti

Berbatov segir eftirsóttasta unga leikmanni heims að fara ekki frá Monaco

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kylian Mbappé er eftirsóttur ungur maður.
Kylian Mbappé er eftirsóttur ungur maður. vísir/getty
Kylian Mbappé, 18 ára gamall framherji Monaco í Frakklandi, getur valið úr tilboðum eftir tímabilið en þessi magnaði framherji hefur farið á kostum með franska liðinu í vetur.

Mbappé varð í gærkvöldi yngsti leikmaðurinn til að skora í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þegar hann skoraði eina mark Monaco í undanúrslitaeinvíginu á móti Juventus.

Hann hefur verið orðaður við stórlið á borð við Real Madrid, Barcelona, Manchester United, Chelsea og Arsenal. Hann ætlar sjálfur ekki að taka neina ákvörðun fyrr en í lok tímabilsins en Mbappé fékk heilræði frá nokkrum spekingum í gærkvöldi.

Dimitar Berbatov og Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmenn Manchester United, og Glenn Hoddle, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, stóðu Meistaradeildarvaktina á BT Sport í gærkvöldi og ræddu um framtíð Mbappé eftir leik.

„Það er best fyrir hann að vera annað ár hjá Monaco og halda áfram að þroskast. Þarna spilar hann nánast hvern einasta leik og fær tækifæri til að láta stjörnu sína skína enn frekar,“ sagði Dimitar Berbatov og Hoddle tók undir orð Búlgarans.

„Hvort sem hann yfirgefur Monaco eða ekki þá verður hann að spila stærstan hluta leikja þess liðs sem hann fer til,“ sagði Hoddle.

Rio Ferdinand varaði Mbappé við því að taka of stórt skref: „Ef hann fer til Real eða Barca á hann ekki eftir að spila hvern einasta leik. Hann verður bara rulluspilari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×