Erlent

Macron segist allt eins eiga von á hörðum orðaskiptum á fundi sínum með Pútín

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín og Emmanuel Macron.
Vladimír Pútín og Emmanuel Macron. Vísir/AFP
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti sitja nú á fundi í Versölum, skammt frá París. Samskipti ríkjanna hafa verið stirð á síðustu árum, meðal annars vegna stríðsátakanna í Úkraínu og Sýrlandi, en fyrir fundinn sagðist Macron eiga von á að til harðra orðaskipta gæti komið.

Kosningateymi Macron sakaði nýverið fulltrúa rússneskra yfirvalda um að beina tölvuárásum gegn framboði Macron og í aðdraganda frönsku forsetakosninganna fundaði Pútín með Marine Le Pen, forseta Þjóðfylkingarinnar, í Moskvu þar sem hann óskaði henni góðs gengis. Macron hafði hins vegar betur gegn Le Pen í síðasti umferð forsetakosninganna.

Á fundi G7-ríkjanna á Sikiley um helgina sagði Macron það vera nauðsynlegt að ræða við rússnesk stjórnvöld þar sem ekki væri hægt að leysa sumar alþjóðlegar deilur án þess að eiga samtal við Rússa.

Áður hafa frönsk stjórnvöld gagnrýnt Rússlandsstjórn fyrir stuðning þeirra við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Þá hafa Frakkar og önnur Evrópusambandsríki beitt Rússa viðskiptaþvingunum í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga.

Frakkar og Rússar hafa sömuleiðis stutt við bakið á ólíkum hópum í Sýrlandsstríðinu síðustu ár. Hafa Frakkar stutt hópa súnníaraba og Kúrda, en Rússar verið ötulir stuðningsmenn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×